ÞRÓUNARÁÆTLUN KEFLAVÍKURFLUGVALLARSVÆÐIS
K64 er heildstæð efnahags- og skipulagsleg þróunaráætlun fyrir svæðið í kringum Keflavíkurflugvöll, mikilvægustu gátt Íslands við umheiminn. Í þróunaráætlun K64 nefnist svæðið Keflavíkurflugvallarsvæðið eða Keflavik Airport area. K64 rammar inn markmiðadrifna þróun á þessu lykilsvæði sem var unnin í nánu samráði við nærliggjandi sveitarfélög og yfirvöld flugmála á Íslandi. Grunn tilgangur K64 er að nýta betur þá miklu möguleika sem felast í nándinni við alþjóðaflugvöll sem getur verið efnahagslegur drifkraftur og einnig að samræma áætlanir margra aðila með ólík markmið til að ná að skapa sterka heild með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það leiði til hagsbóta fyrir íbúa, sveitarfélög og starfsemi á svæðinu, Suðurnesin öll og hugsanlega á landsvísu.
Suðurnesin eru einstakur staður þar sem mikil tækifæri eru til uppbyggingar. Nálægðin við langstærsta farþega- og fraktflugvöll landsins, fyrsta flokks hafnaraðstaða, aðgengi að grænni orku og fjölbreytt og fjölmennt samfélag dugmikils fólks skapar möguleika sem erfitt er að finna annars staðar.
Þróunaráætun K64 byggir á samvinnu sveitarfélaga og hagsmunaaðila og kallar fram samræmingu hugmynda og skipulagsáætlana til þess að skapa aðlaðandi og lífvænlegt samfélag. Umhverfi sem umbreytir Suðurnesjunum í heildstætt flugvallarsvæði með þeim tækifærum sem náið samstarf felur í sér.
Áætlunin eflir flugvallartengda starfsemi og undirbýr svæðið undir vöxt með aðlaðandi íbúðarhverfum, tækifærum til menntunar, fjölbreyttri menningu og þjónustu. Útfærsla þróunaráætlunar skapar einnig kærkomna og eftirminnilega komuupplifun fyrir farþega á leiðinni til landsins, tengingu milli sveitarfélaga og aðlaðandi umhverfi fyrir íbúa svæðisins.
K64 er nýtt vörumerki sem stendur fyrir hinar ýmsu áætlanir og verkefni sem saman mynda yfirgripsmikla þróunaráætlun. Merkið er notað í markaðslegum tilgangi á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Hugmyndafræðin að baki merkinu er nátengd staðsetningu Keflavíkurflugvallarsvæðisins og því var ákveðið að hún yrði ráðandi í nafninu. Suðurnesin eru á 64. breiddargráðu og því hefur verkefnið hlotið heitið K64. K-ið í nafninu vísar til svæðisins, þróunarfélagsins Kadeco sem heldur utan um verkefnið og síðast en ekki síst flugvallarins sem er og verður kjarninn í atvinnulífi Suðurnesja.